Fimmtugur...
Ég sit hérna í stofunni heima hjá mér. Dóttir mín er að glápa á Sponge Bob, eða Svampe Bob eins og hann kallast á dönskunni. Ég er orðinn 50 ára og tveimur dögum betur. Ég hreinlega næ þessu ekki. Mér líður hreint ekki þannig að ég sé fimmtugur....fimmtugur!!! Að verða þrítugur eða fertugur var svo sem allt í lagi, en 50 úff það eiginlega hitti mig á kollinn núna bara á afmælisdaginn.
En ég er á góðum stað. Á frábær börn, bónusbörn og konu. Ég er nýbúinn að kaupa hús og flyt innan tveggja mánaða. Lífið er dásamlegt satt best að segja og væri hreinlega vanþakklæti að kvarta. Liverpool mætti reyndar fara að spila betur, en það kemur á næsta ári þegar þeir hafa fundið varnarmenn í liðið.
Afmælisdagurinn var indæll. Við buðum Addí og Helga yfir og svo voru Máni, Hrönn og Njála líka með. Öll börn voru hér nema Alexander, sem því miður komst ekki. Máni gerði himneska ostaköku og Hrönn gerði Grand kökuna góðu. Svo vorum við með allskyns brunch dót á borðum. Ég fékk æðislegar gjafir og já get ekki sagt annað en að dagurinn hafi verið góður.
Ansi margir, yfir fimmtugt hafa sagt við mig að nú loksins byrji lífið. Ég hef þá bara verið í 50 ára forleik og nú skal tekið á því. Maraþonið hlaupið, Tour De France hjólað og gengið yfir Vatnajökul. Svo líklega læri ég endanlega að prjóna og tala ítölsku.
Þegar ég horfi tilbaka þá hef ég nú átt alveg ágætis ævi só far. Hef prófað ýmislegt og eignast frábærar minningar og vini hingað og þangað um hnöttinn. Ég get samt ekki almennilega sagt að ég hafi "fundið mig" svona starfslega. Ég byrjaði í læknisfræðinni með Helga vini mínum, en fór svo þaðan í Enskuna og kláraði bachelorinn. 3 frábær ár, eiginlega eins og framhaldsskóli. Gott djamm og gleði ásamt góðum skammti af góðum bókmenntum. Þaðan reyndi ég aðeins við tölvunarfræði, en þráin að vinna og koma sér upp húsnæði og fjölskyldu tók yfir og ég hætti í náminu. Fljótlega fékk ég svo vinnu hjá Friðriki Skúlasyni, sem var góður skóli fyrir mig eins og Íslenskir Aðalverktakar höfðu verið. Ég lærði nýja hluti og held bara að ég hafi verið nokkuð góður þar. Eftir það lá leiðin til Danmerkur í nám. Þverfaglegt nám, eða þvagferlegt eins og Steini vinur minn gæti sagt. Enn og aftur góður skóli fyrir mig og nýtt í reynslubankann. Ég fékk svo tækifæri til að vinna í mánuð í Róm og það var geðveikt gaman.
UPS dúkkaði svo upp og ég hef unnið þar síðustu 14 árin eða svo. Vinir mínir hafa upplifað mig fara allan tilfinningarskalann þegar kemur að þeirri vinnu. Ég hef oft verið á leiðinni í burtu, en ekki hætt enn. Hver veit hvað gerist, en akkúrat núna er vinnan svo sem ágæt.
Eins og ég sagði fyrir ofan, þá erum við Magnea búin að kaupa okkur hús í bænum Ryslinge (borið fram Ruslinge :)) og við erum að deyja úr spenningi. Allir fá herbergi og ég fæ meira að segja smá horn til að setja upp skrifstofu fyrir heimavinnuna. Stór garður og lítur út fyrir að samfélagið sé indælt.
Í Ryslinge búa rétt undir 2000 manns, ekki stórbær á neinum mælikvarða.
Jæja, Svampe Bob er að klárast og dóttir mín farin að toga í mig og segja "sofa!".
Lifið heil og njótið
Arnar
Ummæli
Já, og hæ Munda, þegar þú kíkir hingað!